Eftirtalin skjalasöfn verða með opið hús á skjaladeginum, eða bjóða upp á sýningar sem tengjast deginum.
Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegi 162, 105 Reykjavík
Þjóðskjalasafn Íslands verður með opið hús á skjaladeginum. Í Viðey, samkomusal á 3. hæð á Laugavegi 162, fer fram ráðstefna um skjöl landsnefndarinnar fyrri 1770-1771. Ráðstefnan er haldin í tilefni af því að um þessar mundir kemur út annað bindið af sex í heildarútgáfu á skjölum landsnefndarinnar fyrri, en útgáfan er samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns Íslands, Sögufélags og Ríkisskjalasafns Danmerkur. Við þetta tækifæri verður einnig opnaður vefur þar sem frumskjöl nefndarinnar eru birt. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson opnar ráðstefnuna, sem stendur frá kl 13:00-17:00. Sjá dagskrá ráðstefnunnar.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík
Í tilefni af Norrænum skjaladegi 2016 efnir Borgarskjalasafn Reykjavíkur til sýningar á prentuðu efni frá ýmsum tíma. Sýningin er í stigagangi á 3. hæð Grófarhúss, Tryggvagötu 15 og opin daglega til og með 25. nóvember nk.
Á sýningunni má sjá mismunandi matseðla sem einstaklingar og félagssamtök bjóða gestum sínum upp á og spanna árin frá fimmtugsafmælisfagnaði Einars Benediktssonar árið 1914 og til hátíðarmatseðils frá Broadway 2003. Einn matseðillinn er bæði á ensku og rússnesku. Með matnum mátti drekka Polar Beer frá Agli Skallagrímssyni eins og sjá má á flöskumiðanum. Þar er einnig kort frá American Style, sem sýnir nútímann.
Þá eru sýndir vel hannaðir og fallegir bæklingar um mat og drykk með hina þjóðlegu mysu, ost, Hollt og gott fyrir börnin, hátíðarborð í mat og kökum, ís á marga vegu, smurt brauð að hætti Jómfrúarinnar og vel gerðar auglýsingar frá Nóatúni og Café París. Með þessu öllu má drekka Sanitas gos.
Í bökunarhorninu er þekkti Royal uppskriftabæklinginn og auglýsingapési frá verslunni Von sem býður allt til bökunar og uppskriftir.
Opnunartími sýningar: Mánudaga- föstudaga kl. 10:00 -18:00. Helgar kl. 13-17:00. Aðgangur ókeypis.
Héraðsskjalasafn Dalasýslu
Miðbraut 11, 370 Búðardalur
Allir eru velkomnir á sýningu og spjall á Byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal laugardaginn 12. nóvember kl. 15:00-17:00.
Héraðsskjalasafnið Ísafirði
Safnahúsinu Eyrartúni, 400 Ísafjörður
„Hungur kennir höndum vinnu“ er yfirskrift sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum laugardaginn 12. nóvember. Yfirskrift skjaladagsins að þessu sinni er „Til hnífs og skeiðar“ og mun skjalasafnið sýna skjöl og myndir er tengjast matargerð fyrr á tímum. Þá verður einnig sýnd stutt heimildamynd um kleinubakstur og gestum boðið upp á kleinur með kaffinu.
Sýningin er í Safnahúsinu við Eyrartún, Gamla sjúkrahúsinu, á Ísafirði, og verður opin í nóvember á opnunartíma hússins, frá kl 13:00 til 18:00 á virkum dögum og kl 13:00 til 16:00 á laugardögum.
Héraðsskjalasafn Skagafjarðar
Safnahúsinu við Faxatorg, 550 Sauðárkrókur
Á norræna skjaladaginn, laugardaginn 12. nóvember, klukkan 15:00, heldur Kristján Eiríksson frá Fagranesi fyrirlestur sem hann nefnir „Drangey, Hólastóll og flekaveiðar“. Þá stendur uppi ljósmyndasýningin „Drangey – matarkista Skagfirðinga“. Allir velkomnir.
Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Brekkugötu 17, 600 Akureyri
Ekki er um að ræða sérstaka dagskrá á skjaladeginum, en við erum með sýningu sem stendur allan nóvembermánuð og heitir „Meðal fólksins er vettvangur minn“. Sýningin er sett upp í minningu Kristjáns frá Djúpalæk sem átti 100 ára fæðingarafmæli 16. júlí s.l. Sýningin er opin á skjaladaginn kl 11:00-16:00 eins og aðra laugardaga í nóvember.