Margar frásagnir greina frá brúðkaupsveislum fyrr á tíð og var þá oft ríkulega á borð borið bæði í mat og drykk. Í fórum Héraðsskjalasafnsins er að finna matseðil frá brúðkaupsveislu sem haldin var á Búðum í Fáskrúðsfirði þann 25. september 1909. Brúðhjónin voru þau Jakobína Davíðsdóttir (1882-1966) og Björn Ólafur Gíslason (1888 -1932). Jakobína var ráðskona hjá bróður sínum Jóni Davíðssyni sem var verslunarstjóri Hinna sameinuðu verslana á Fáskrúðsfirði. Var Ólafur starfsmaður hans. Margir framandi réttir eru á matseðlinum sem líklega hafa verið sjaldgæfir á borðum landsmanna og skálað er í eðalvínum.
Ólafur varð síðar verslunarstjóri Hinna sameinuðu verslana, fyrst á Borgarfirði eystra og síðan á Norðfirði. Árið 1925 fluttu þau hjón til Viðeyjar þar sem Jón gerðist forystumaður í útvegsmálum. Þau hjón eignuðust 7 börn og kemur fram í minningarorðum um Jakobínu að hjónaband þeirra hafi verið svo ástríkt að orð var á gert. Ólafur andaðist fyrir aldur fram og lifði Jakobína mann sinn í rúma 3 áratugi.