Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Hungur kennir höndum vinnu

Heimilishald nú til dags er mun einfaldara en forfeður okkar áttu að venjast. Frá dögum iðnbyltingarinnar hafa  vélar í síauknum mæli leyst mannshöndina af hólmi og mörg verk sem áður voru tímafrek og erfið, heyra sögunni til. Nefna má heimilistæki eins og t.d. þvottavélar, eldavélar og ísskápa sem ekki aðeins einfölduðu heimilisstörfin heldur gerðu líka vinnukonur á heimilum óþarfar og mörkuðu endalok þeirrar starfsstéttar.

Uppskriftabók úr Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Bókin er merkt Þorbjörgu Bjarnadóttur sem var skólastjóri húsmæðraskólans 1948-1986.

Uppskriftabók úr Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Bókin er merkt Þorbjörgu Bjarnadóttur sem var skólastjóri húsmæðraskólans 1948-1986.

Matargerð á heimilum fyrri alda var tímafrek þar sem vinna þurfti matvælin frá grunni og oft þannig að þau þyldu langa geymslu. Matseldin fór fram í hlóðareldhúsum og takmarkaðist við það sem þar var hægt að elda, steikja eða baka. Á seinni tímum hefur matvælavinnslan flust til fyrirtækja sem sérhæfa sig í að breyta afurðum í fullunnar vörur fyrir neytendur. Fyrir samfélag þar sem flestir starfa utan heimilis er þetta fyrirkomulag á margan hátt þægilegt en um leið glatast aldagömul þekking á því sem hægt er að nýta til matar og með hvaða hætti.

Námsmeyjar í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði veturinn 1928-1929. Við enda borðsins sitja Gyða Maríasdóttir, forstöðukona, og Hólmfríður Kristinsdóttir, kennslukona.

Námsmeyjar í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði veturinn 1928-1929. Við enda borðsins sitja Gyða Maríasdóttir, forstöðukona, og Hólmfríður Kristinsdóttir, kennslukona.

Að tileinka sér þessa þekkingu var lífsspursmál í fátæku og harðbýlu sveitasamfélagi fyrri tíma. Kennslan fór fram innan veggja heimilisins en einnig tíðkaðist að stúlkur færu í vist á betri heimili þar sem þær gátu aukið við þekkingu sína í bústörfum. Á síðari hluta 19. aldar komu kvennaskólarnir til sögunnar og seinna húsmæðraskólarnir. Um tíma voru slíkir skólar starfandi í öllum landshlutum og má segja að blómatími þeirra hafi verið á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Eftir það dró úr aðsókninni  og árið 1980 höfðu allir húsmæðraskólarnir verið lagðir niður nema í Reykjavík og á Hallormsstað.

Námsmeyjar í Húsmæðraskólanum Ósk bjóða upp á kalt borð 20. október 1968.

Námsmeyjar í Húsmæðraskólanum Ósk bjóða upp á kalt borð 20. október 1968.

Húsmæðraskólinn Ósk á Ísafirði var stofnaður árið 1912 og starfaði allt til ársins 1989 þegar hann varð hluti af Framhaldsskóla Vestfjarða. Skjalasafnið á Ísafirði varðveitir talsvert af gögnum frá húsmæðraskólanum en einnig ýmis gögn úr fórum námsmeyja, t.d. minningabækur og ljósmyndir.

Hjördís Hjörleifsdóttir, kennari við Húsmæðraskóla Ósk, leiðbeinir verðandi matsveinum á matreiðslunámskeiði í kringum 1975.

Hjördís Hjörleifsdóttir, kennari við Húsmæðraskóla Ósk, leiðbeinir verðandi matsveinum á matreiðslunámskeiði í kringum 1975.

 

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén