Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Kleinubakstur að gömlum sið

Nokkrar handskrifaðar uppskriftabækur eru varðveittar á Skjalasafninu Ísafirði. Afhendingar á slíkum gögnum eru þó færri en ætla mætti og liggja fyrir því tvær meginástæður. Annars vegar eru uppskriftirnar oft skrifaðar í stílabækur sem fara illa við áratuga langa notkun og svo hitt að þær hafa oft tilfinningalegt gildi fyrir afkomendur sem er óljúft að láta þær frá sér.

Kristjana Sigurðardóttir og Tryggvi Á. Pálsson ásamt börnum sínum og vinnukonu í heyskap á Kirkjubóli í Skutulsfirði í kringum 1925.

Kristjana Sigurðardóttir og Tryggvi Á. Pálsson ásamt börnum sínum og vinnukonu í heyskap á Kirkjubóli í Skutulsfirði í kringum 1925.

Elsta uppskriftabókin sem varðveitt er á Skjalasafninu Ísafirði er úr fórum Aðalheiðar Tryggvadóttur (1911-2000) úr Hnífsdal. Flest bendir til þess að bókin hafi áður verið í eigu móður hennar, Kristjönu Sigurðardóttur, sem var fædd  4. mars 1872 að Húnsstöðum í Torfalækjarhreppi í Húnavatnssýslu, dóttir hjónanna Sigurðar Jónssonar úr Skagafirði og Sigríðar Guðmundsdóttur frá Skagaströnd. Kristjana gekk í kvennaskólann að Ytri-Ey á Skagaströnd og stundaði þar nám í tvo vetur. Hún vann við barnakennslu á Klömbrum í Vesturhópi veturinn 1898–1899 og kynntist þar tilvonandi eiginmanni sínum, Tryggva Á. Pálssyni. Þau giftust á Ísafirði 1. október 1899 og dvöldu þar yfir veturinn en fluttu síðan yfir í Barðastrandarsýslu þar sem þau bjuggu í Gufudalssveit og Reykhólasveit um nokkurra ára skeið. Lengstum voru þau þó búsett að Kirkjubóli í Skutulsfirði, eða í rúm 20 ár. Kristjana og Tryggvi eignuðust níu börn, tvær dætur og sjö syni. Kristjana lést 18. nóvember 1958 en Tryggvi tæpum fimm árum seinna, 5. ágúst 1963.

Uppskriftabókin á að öllum líkindum rætur að rekja til þess tíma sem Kristjana var við nám í kvennaskólanum að Ytri-Ey. Að námi loknu  hefur hún haldið áfram að skrifa í bókina  og hefur Aðalheiður gert hið sama eftir að bókin komst í hennar eigu því fleiri en eina rithönd má finna í henni.  Á opnunni sem sýnd er á myndinni, má m.a. sjá uppskrift að kleinum og Prins Kristjáns hringjum.  Kleinur eru enn í dag í miklum metum meðal þjóðarinnar og fyrir áhugasama setjum við hér inn myndband sem sýnir aðferðina við kleinubakstur.

 

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén