Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Matardagbók 1911

Ketill Indriðason frá Fjalli í Aðaldal hélt matardagbók frá 1. apríl 1911 til 7. júlí sama ár. Matardagbókin er varðveitt í Héraðsskjalasafni Þingeyinga (E-1450/1).

Frá vinstri: Ketill Indriðason, Sólveig Indriðadóttir, Hólmfríður Indriðadóttir, Signý Jóhannesdóttir, Óttar Indriðason, Úlfur Indriðason og Indriði Indriðason.

Frá vinstri: Ketill Indriðason, Sólveig Indriðadóttir, Hólmfríður Indriðadóttir, Signý Jóhannesdóttir, Óttar Indriðason, Úlfur Indriðason og Indriði Indriðason. Myndin tekin um 1923-24.

Indriði Ketilsson, sonur Ketils Indriðasonar, bætti við eftirfarandi upplýsingum er hann afhenti matarbókina til skjalasafnsins.

Þarna lýkur matarbókinni. E.t.v. orðinn minni tími til skýrsluhaldsins, því síðustu dagana eru öll matarnöfn skammstöfuð.

Ég ætla að þetta muni nokkuð fágætt skýrsluhald, a.m.k. frá þessum tíma og mætti lesa nokkurn fróðleik út úr því. Undirstöðumaturinn er mjólkurmatur, slátur, brauðmeti og viðbit, mest smjör. Vekur athygli, hve lítið er um kjöt og fisk. Og fjallagrös sjaldan nefnd. Ekki heldur talað um skyr.

Ekki er svo vel að mér sé ljóst, hvað felst í sumu orðalagi. Ég vandist því að „væta“ væri annað nafn á skyrhræru. „Grautur“ hefði haldið að væri það , sem við köllum hafragraut eða vatnsgraut, en vel má vera að þetta hafi verið bankabyggsgrautur.

„Slátur“ merkir blóðmör. „Lifur“ lifrapylsu á sama hátt, eftir því sem ég vandist þessum nöfnum. Skammstafanir: Mv. Hlýtur að tákna morgunverð. Kv. = kvöldverð og Dv. Dagverð, sem mun hafa verið nær miðjum degi og þegar ég man fyrst til mín um 1937 var kallaður miðdegismatur og ætla ég hann væri að jafnaði kringum kl. 4 sd. eða 16:00. Þá var hafður drykkur um hádegisbil, mjólk og kaffi eins og hver vildi, (sumir drukku vatnsbland) og heimabakað kaffibrauð og stundum smurt með. Ekki man ég nú hvenær þessi „siðaskipti“ urðu á mínu heimili, gæti trúað 1940-43 og hefur það sennilega orðið í seinna lagi hér í kring, því ég ætla að breytingin hafi gerzt á einhverju árabili.

Til marks um það er lítil gamansaga, sem ég freistast til að setja hér, því hún bregður líka ljósi á það að ekki gilti sami siður um matmálstíma á hverjum bæ. Þegar hún gerist er ljóst að víða er farið að hafa hádegismat. Þá er það kona nokkur af góðu heimili, sem stundum þótti komast hálf óheppilega að orði. Umræðuefni fólks hlýtur að hafa verið matmálstími því konan segir: „Ja við étum nú ennþá gamla siðinn.“ Var þetta hent á lofti og munað og sagt frá svo ég heyrði.

Opna úr matardagbókinni. Apríl.

Opna úr matardagbókinni. Apríl.

Opna úr matardagbókinni. Maí.

Opna úr matardagbókinni. Maí.

 

Next Post

Previous Post

© 2023 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén