Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Spesier og smörrebröd

Auglýsing um skóla Vísir 11. sept. 1923.

Auglýsing um skóla Vísir 11. sept. 1923.

Snemma á 20. öld fóru íslenskar konur að hafa áhuga og tækifæri til að sækja sér styttra nám til Danmerkur. Hjá mörgum stúlkum urðu húsmæðraskólar fyrir valinu. Þeir auglýstu sig í íslenskum dagblöðum og voru með viðráðanlegt verð á námskeiðum. Íslensku húsmæðraskólarnir voru hins vegar einkum með lengra nám.

Einn af vinsælu skólunum var Sorø Husholdningsskole. Námskeiðin þar voru gjarnan fjórir til fimm mánuðir og það voru 7-12 íslenskar stúlkur á hverju námskeiði. Í skólanum lærðu stúlkurnar allt sem þurfti til að reka stórt heimili. Þær lærðu til að mynda matargerð frá grunni, næringarfræði, dönsku og reikning, vöruinnkaup og allt sem tilheyrði rekstri á heimili.

Póstkort frá Sorø Husholdningsskole sem sýnir eldhús skólans.

Póstkort frá Sorø Husholdningsskole sem sýnir eldhús skólans.

Stúlkurnar lærðu að gera skema yfir máltíðir ákveðið tímabil, vörufræði, skipuleggja innkaup út frá matseðlum, reikna út magn og kostnað á mann. Þær lærðu  að elda jafnt veislumat og hollan heimilismat, nýta matinn vel og gera allt frá grunni. Þær komu til Íslands með ýmsar nýjungar og kynntu þar hráefni sem þær höfðu kynnst í Danmörku, til dæmis grænmeti.

Uppskriftabækur úr safni Sigríðar Ö. Stephensen.

Uppskriftabækur úr safni Sigríðar Ö. Stephensen.

Skólastúlkurnar elduðu allan mat í skólanum, bökuðu kökur og brauð. Þegar þær voru í eldhúsinu, lærðu þær að þrífa og ganga frá á réttan hátt. Kennarinn kom og yfirfór allt, taldi leirtauið og hnífapör og kannaði hvað var af eldhúsáhöldum í skúffunum. Svo gerðu þær sérhæfðari verk, eins og að pússa silfur. Þarna var einnig þvottahús fyrir skólann og skipust þær á að vera þar, um leið og þær lærðu um þvott á mismunandi efnum, meðhöndlun og frágang.

Við skólann var rekið barnaheimili, þar sem þær lærðu uppeldisfræði og allt um umönnun barna og þroska.

Skólastúlkurnar skiptust á verkum, elduðu í viku, voru viku á barnaheimili, viku í þvottahúsi og svo mætti lengi telja. Mikið félagslíf var í skólanum og þær sáu sjálfar um kvöldvökur um helgar. Skólinn fór með þær í eitt til tvö ferðalög á önn. Stúlkurnar máttu ekki fara úr skólanum á virkum dögum nema í gönguferðir í nágrenninu og þurftu að hafa ofan fyrir sér sjálfar.

Bekkur í Sorø Husholdningsskole á árunum 1920-1925.

Bekkur í Sorø Husholdningsskole á árunum 1920-1925. Úr safni Sigríðar Ö. Stephensen, nr. 378.

Við útskrift frá Sorø Husholdningsskole voru haldnar veislur, sem aðstandendum var boðið að koma á. Þar var mikið hlaðborð sem þær sáu um, allt frá því að gera matseðla, innkaupalista, matreiða, skreyta borð, raða á föt, bera fram og ganga frá eftir veislu.

Húsmæðraskólarnir voru einstakt tækifæri fyrir íslenskar stúlkur til að fara í stutt og hagnýtt nám, kynnast og sjá sig um í heiminum og kynnast öðrum.

Skólastúlkurnar héldu oft hópinn þegar heim kom og hittust. Vinátta sumra hópa entist ævilangt. Þær jafnvel stofnuðu saumaklúbb og hittust reglulega. Sumir hóparnir fóru í pílagrímsferð að heimsækja gömla skólann.

Stúlkurnar komu yfirleitt til baka með handskrifaðar uppskriftabækur. Þær komu líka með dæmi um matseðla fyrir hvern dag vikunnar. Þar var bæði um að ræða mat og eftirrétti. Í bókunum var fyrst uppskriftin, svo efnin sem áttu að vera í matnum og loks ítarlegar leiðbeiningar um hvernig ætti að búa hann til.

Maturinn sem þær elduðu var oft öðru vísi en Íslendingar áttu að venjast. Gréta Björg Sörensdóttir rifjar upp:

 „Ég man eftir því þegar ég var að alast upp, hvað maturinn var sérlega fallega fram borinn – allt öðruvísi fram borið en Íslendingar voru vanir. Lögð áhersla á að maturinn væri þannig að fólki langaði að borða hann.“

„Mamma vitnaði oft í það hvað hún hefði lært mikla nýtni og útsjónarsemi við matreiðslu og það væri það sem hún hefði búið mest að.“

Margar fóru með uppskriftabækur sínar eins og fjársjóð og þegar gamlar uppskrifabækur frá húsmæðraskólunum eru skoðaðar, sést að þær hafa verið mikið notaðar og eru oft orðnar blettóttar og slitnar.

Það er ekki mikið um að handskrifaðar uppskriftabækur komi á skjalasöfn. Þær virðast ganga áfram til næstu kynslóða, sem kunna vel að meta þær.

Uppskriftabækurnar hér eru úr einkaskjalasafni Sigríðar Ö. Stephensen, sjá skjalaskrá nr. 378.

Texti: Gréta Björg Sörensdóttir og Svanhildur Bogadóttir.

 

 

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén