Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Kartöflurækt á Akranesi

Það er einkum tvennt sem manni kemur jafn snemma í hug þegar á Akranes er minnst: Sjávarútgerð og kartöflurækt. í meir en tvo mannsaldra hafa Akraneskartöflurnar haldið velli á markaði höfuðstaðarins og verið viðurkenndar sem þær beztu sem í boði voru og hafa því haldið vinsældum sínum allt til þessa dags. Þær hafa því fært mörgum Akurnesingi drjúgan skilding í bú auk þeirra hlunninda sem það er að hafa slíka vöru til neyzlu allan ársins hring og sízt má gleyma því að kartaflan er einhver hollasta fæðutegundin sem er yfirleitt völ á. Vegna þess mun t.d. gott heilsufar vera háðara kartöfluneyzlunni en margur gerir sér grein fyrir.

Yfirlitsmynd af neðri Skaga frá 1948. Þarna má sjá kartöflugarða við hvert einasta hús.

Yfirlitsmynd af neðri Skaga frá 1948. Þarna má sjá kartöflugarða við hvert einasta hús. Ljósmyndari: Árni Böðvarsson.

Á sumardegi setja kartöflugarðarnir sérstakan svip á kauptúnið og er mikils um það vert því sá svipur er fagur eins og svipur alls annars þess sem ræktað er og sýnd umhyggja. Því betri sem umhyggjan er fyrir því sem rækta skal því meiri er uppskeruvonin og er þó máske ekki minnst um vert að sá sem leggur sig vel fram við ræktunarstörfin ræktar jafnan sjálfan sig um leið.

Ásdís Ásmundsdóttir og óþekkt að setja niður kartöflur.

Ásdís Ásmundsdóttir og óþekkt að setja niður kartöflur. Húsin í baksýn eru frá vinstri Deildartún 7, Deildartún 5 og Deildartún 3 á neðri Skaga. Myndin er tekin á 6. áratug 20. aldar. Ljósmyndari: Ólafur Frímann Sigurðsson.

Því er ræktunin jafnan merkur mælikvarði á menningu þjóðanna og eykur öryggi tilverunnar fyrir þá sem stunda hana. En enda þótt Akranesið hafi lengi verið eitt ræktarlegasta kauptún landsins er mér það þó að fullu ljóst að garðyrkjan gæti verið bæjarbúum þar enn meiri stoð en hún hefir verið og er ef hún væri ekki svo að segja eingöngu kartöflurækt. Það er svo margt annað en kartöflur og gulrófur sem hægt væri að rækta þar með ágætum árangri. […]

Börn í kartöflugarði á neðri Skaga.

Börn í kartöflugarði á neðri Skaga. Syðri Sandar og Arnarstaður í baksýn. Myndin er tekin á 4. áratug 20. aldar. Ljósmyndari: Árni Böðvarsson.

Það er þeim ljóst sem þekkja vel til hve mikil grænmetisneyzla er á heimilum í nágrannalöndunum. Þar er grænmeti á borðum í hverja máltíð dagsins allan ársins hring og er það ýkjulaust. „Þó að ég hafi búrið fullt að mat, þá finnst mér samt að ég hafi engan mat, ef ég hefi ekki kartöflur og annað grænmeti“, sagði dönsk húsmóðir við mig í síðustu utanför minni, 1937. […]

Jón Sigurðsson (1870-1953) smiður á Vindhæli að vinna í kartöflugarðinum.

Jón Sigurðsson (1870-1953) smiður á Vindhæli að vinna í kartöflugarðinum. Í baksýn má sjá verslunarhús Þórðar Ásmundssonar útgerðarmanns til hægri og Grímsstaðir til vinstri. Myndin er tekin á 4. áratug 20. aldar. Ljósmyndari er óþekktur.

En við höfum eiginlega lengi búið við grænmetisskort, vantað grænmeti með hinum fæðutegundunum. Úr þeim skorti þurfum við að reyna að bæta í sumar og áfram þaðan af og hafa grænmetisræktunina fjölbreyttari en hún hefir verið hingað til. Alltaf skyldu garðar vel hirtir vera og máske hefir aldrei riðið meira á að hirða þá vel en einmitt nú þegar flest virðist vera í óvissu, sem fram undan er. Vinnið því hvert verk á réttum tíma og látið ekki illgresi hagnýta sér þá næringu sem kartöflum og öðrum matjurtum er ætluð. Mættu garðar Akurnesinga og allra landsmanna blómgast sem bezt í sumar!

Ragnar Ásgeirsson

Um kartöflurækt Skagamanna eftir Hallgrím Jónsson 1867.

Um kartöflurækt Skagamanna, eftir Hallgrím Jónsson 1867.

Um kartöflurækt Skagamanna eftir Hallgrím Jónsson 1867.

Um kartöflurækt Skagamanna eftir Hallgrím Jónsson 1867.

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén