Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Handskrifaðar uppskriftabækur

Fyrir tíma matarbloggara og aðkeyptra uppskriftabóka frá Hagkaupum, sáu húsmæður sjálfar um að útbúa sínar eigin matreiðslubækur. Oftast var um að ræða stílabækur sem konurnar skrifuðu í þær uppskriftir sem þær gátu hugsað sér að halda upp á. Uppskriftunum viðuðu þær að sér frá ýmsum stöðum en líklegt má telja að flestar uppskriftirnar hafi þær tekið upp eftir mæðrum sínum. Margar uppskriftirnar í bókunum voru þess vegna mjög gamlar og höfðu gengið mann fram af manni. Í Héraðsskjalasafni Árnesinga má finna nokkuð af uppskriftabókum og þar á meðal uppskriftabækur Guðfinnu Guðmundsdóttur húsfreyju í Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi.

Túmatsósa, Gulróta-marmelaði og Rauðrófu-salat. Uppskriftir úr uppskriftabók Guðfinnu.

Túmatsósa, Gulróta-marmelaði og Rauðrófu-salat. Uppskriftir úr uppskriftabók Guðfinnu.

Guðfinna var fædd 3. september árið 1912 og var húsfreyja í Vorsabæ frá árinu 1943, en hafði áður staðið fyrir búi föður síns í Túni í Hraungerðishreppi eftir að móðir hennar dó árið 1931. Guðfinna hafði því alltaf þurft að kunna á eldhússtörfum góð skil og uppskriftabækurnar því komið sér vel. Oft hafa verið margir við matarborðið í Vorsabæ þegar börn Guðfinnu voru heima við og jafnvel vinnufólk. Einnig var gestkvæmt á heimilinu sökum þess hve Stefán Jasonarson, maður Guðfinnu, vann ötullega að félagsmálum og þau hjónin voru bæði félagslynd. Alltaf var til með kaffinu og oft var á borðum heimabakað brauð með gulrótamarmelaði.

Brauð

3 bollar hveiti

2 bollar heilhveiti

3 tsk perluger

3 tsk sykur

1 tsk salt

Volgt mjólkurbland

Gulrótamarmelaði

½ kg. skafnar gulrætur

¼ l. vatn

575 gr. sykur

2 st. sítrónur

Best er að gulræturnar séu langar. Þær eru þvegnar og skafnar og skornar í mjög þunnar ræmur ½ kg. af þessum ræmum er látið í gatasigti klútur settur yfir, og set yfir gufu í 20 mínútur þá eru ræmurnar soðnar í vatni í 5 mínútur. Vatn og sykur soðin saman og sítrónusafin balndist saman við. Sítrónuhíðið er skorið mjög smátt og nú er gulræturnar og sítróníðið látð í sykurlaugin og allt soðið í 20 mínútur.

Vorsabær í Gaulverjabæjarhreppi.

Vorsabær í Gaulverjabæjarhreppi. (Ljósmyndari: Páll Lýðsson, Litlu-Sandvík)

Heimildir

Ágúst Þorvaldsson. „Hraungerðishreppur“. Sunnlenskar byggðir, 2. bindi. Reykjavík.

Búnaðarsamband Suðurlands, 1981. bls. 414-487.

 

Previous Post

© 2022 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén