Á ljósmyndavef Héraðsskjalasafns Árnesinga má nú finna rúmlega 90.000 ljósmyndir. Myndirnar eru flestar af Suðurlandi og eru góðar heimildir um hina ýmsu þætti mannlífs.
Þegar slegið er inn leitarorðið „hlaðborð“ koma upp 74 leitarniðurstöður. Út úr þessum ljósmyndum má lesa ýmislegt um matarmenningu og tísku þá og nú. Engin þessara ljósmynda sýnir t.d. marengstertu eða heitan brauðrétt þrátt fyrir að þessar tegundir veislufanga hafi þótt ómissandi á veisluborðum síðustu ára. Aftur á móti virðist hin klassíska rjómaterta með niðursoðnum ávöxtum hafa átt hug og hjörtu fólks á árum áður. Nú til dags reka flestir upp stór augu þegar þeir sjá slíkt á veisluborðum.
Það sem virðist hafa verið áberandi vinsælt uppúr 1970 voru svokölluð köld borð. Á slíkum borðum úði og grúði af köldum réttum s.s. lax í hlaupi, spínatrönd og kaldri skinku. Magn rétta virðist hafa verið lykilatriði og glæsilegar skreytingar hafa ekki spillt fyrir.
Glæsilegar skreytingar virðast ekki hafa verið bundnar við réttina eingöngu heldur hefur þótt mikilvægt að hafa glæsilegar borðskreytingar til þess að auka á glæsileikann. Hlaðborðin endurspegla öll tíðarandann og gaman er að skoða þau með tilliti til matartísku hvers tíma.