Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Um fjallagrös

Theodór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi fæddist á heiðarbýlinu Hafurstöðum í Öxarfirði þann 27. mars 1901. Theodór ólst upp á Hafurstöðum en bærinn er í næsta nágrenni við Jökulsárgljúfur. Hefðbundin skólaganga Theodórs var ekki löng en stærsti og mikilvægasti skólinn í lífi Theodórs voru hinsvegar Jökulsárgljúfrin en þaðan aflaði hann sér ómældrar þekkingar á náttúru landsins. Margar greinar eftir Theodór um náttúrufræðileg efni birtust opinberlega t.d. í Náttúrufræðingnum. Mikið er enn óbirt af handritum Theodórs en handritasafn hans er geymt í Héraðsskjalasafni Þingeyinga. Í einni greininni fjallar Theodór um fjallagrös.

Theodór Gunnlaugsson.

Theodór Gunnlaugsson.

“Það er alkunna, enda ekki nema 80 til 90 ár síðan að konur og unglingar víða um land létu það vera sitt fyrsta verk á morgnanna að ná í fáein fjallagrös í matinn. Á fastandi maga mun líka fátt vera hollara en hann. Þetta sýnir líka annað. Aldrei eru fjallagrös eins gómsæt, ljúffeng og bragðgóð, eins og einmitt nýtínd. Það ber að festa í minni. Hver skyldi líka efast um það þetta vissu þá íslenszkar húsmæður eftir þúsund ára kynni af þeim.

En íslenski veturinn er langur og lætur sjaldan í minni pokann. Það varð því að afla grasanna æa vorin. Á sama tíma voru líka víða næstum allar matarbirgðir þrotnar. Mjólkin úr kúnum, var það eins, sem treyst var á, og svo fjallagrösin, sem soðin voru í mjólkurblandi. Og þó að hesturinn hafi ávallt verið talinn þarfasti þjónninn og það með réttu þá verður jafnframt að viðurkenna það að kýrnar hafi bjargað langt um fleiri mönnum frá hungurdauða utan notkun fjallagrasa í mjólk og grauta, þ.e. með grjónum, þá voru þau notuð í slátur, til að drýgja mjölið. Betra mun þá hafa verið að saxa þau, þó ég minnist ekki að það hafi verið gert. En slátrið fannst mér hnossgæti, meðan það var nýtt, en þar sem það varð ekki eins þétt í sér, eins og grasalaust, þá súrnaði það miklu fyrr og varð þá jafnframt miklu sundurlausara. Tolldu sneiðar því ekki saman og man ég eftir að stundum missti ég þær niður í skálina mína, svo gusan kom upp í nefið. En þess gætti ég vandlega, að ekkert færi til spillis.

En um samanburð á því hvernig flestir fóru þá að mat sínum og nú, ætla ég eigi að gera neinn samanburð. Þó fullyrði ég að þar færu fjallagrösin með glæsilegan sigur af hólmi, í samanburði við margt af því sem nú er mest sótt eftir, í kapphlaupinu um daglegar kræsingar.”

Theodór lést á Húsavík, 12. mars 1985 þá tæplega 84 ára.

 

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén