Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Beint frá býli

Á síðustu áratugum 19. aldar var Reykjavík að breyta um svip. Sjálfsþurftarbúskapurinn var að víkja og verslarnir sáu um innkaup og sölu á kjöti fyrir heldri borgara. Í Þjóðskjalasafni er unnið að skráningu skjalasafns Geirs Zoëga kaupmanns og þar kennir ýmissa grasa. Sem dæmi má hér sjá einn af mörgum listum frá verslun Geirs frá árinu 1884. Á listann gátu þeir viðskiptavinir skráð sig sem vildu kaupa „kjöt af spikfeitum básgelding (töðuöldum frá Búrfelli í Grímsnesi)“ Á listann rituðu nafn sitt margir af heldri borgurum bæjarins eigin hendi. Þar má m.a. nefna Pétur Pétursson biskup, Þórunni Scheving Thorsteinsson sýslumannsfrú, Jón Árnason bókavörð, Jón Pétursson háyfirdómara, Ingileif Melsteð, ekkju Páls Melsteð amtmanns og Steingrím Thorsteinsson skáld og kennara.

Innkaupalisti úr safni Geirs Zoëga kaupmanns.

Innkaupalisti úr safni Geirs Zoëga kaupmanns.

Ágúst Jósefsson getur þess í endurminningabók sinni: Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, hvernig þessir listar urðu til:

„Meðal annarra verka okkar unglinganna hjá kaupmönnum var það, að ganga í hús bæjarmanna, einkum betri borgaranna, með svo nefndan kjötlista. Þetta var strikuð pappírsörk með skrifuðum formála, þar sem tilkynnt var hve mikið hvert kjötpund ætti að kosta. Á blaðið áttu menn að skrifa nafn sitt og heimilisfang, hve mörg pund af kjöti þeir vildu fá keypt og hvaða tegund. … Daginn eftir var bola slátrað, og hann síðan bútaður sundur samkvæmt áskriftarlistunum, og nafn kaupanda skrifað á seðil, sem klesstur var á hvern skammt. Svo kom aftur til kasta okkar drengjanna, en það var, að færa kaupendum kjötið heim.“

Eins og áður sagði eru innkaupalistarnir í safni Geirs Zoëga fjölmargir og um margt áhugaverðir, enda lýsa þeir með nokkrum hætti lífi heldri stéttarinnar í Reykjavík á 19. öld.

Heimildir

ÞÍ. Skjalasafn Geirs Zoëga.
Ágúst Jósefsson. Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, 1959, bls. 30-31.

 

Next Post

Previous Post

© 2021 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén