Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Búreikningar séra Guðmundar Einarssonar

Guðmundur Einarsson (1816-1882) var prestur á Kvennabrekku 1848-1868 og á Breiðabólstað á Skógarströnd 1868 -1882.

Í Héraðsskjalasafni Dalasýslu er að finna handritaða bók með búreikningum sr. Guðmundar fyrir árin 1845-1882. Meðal efnis í bókinni er að finna grein um búreikninga, sem síðar birtist í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags árið 1883.

Úr búreikningum sr. Guðmundar Einarssonar.

Úr búreikningum sr. Guðmundar Einarssonar.

Til að finna út fæðiskostnað býr Guðmudur til mismunandi matseðla og reiknar út kostnaðinn við hverja og eina máltíð. Samkvæmt útreikningum hans er fæðiskostnaður fyrir karlmann hvern dag 65 aurar og kvennmann 40 aurar.

En ekki er síður áhugavert að skoða hvað er talið eðlilegt fæði á prestsetrinu. Fimm máltíðir eru á dag; morgunkaffi, morgunverður, hádegiskaffi, miðdegisverður og kvöldverður. Útreikningar miðast við 3 karlmenn og 7 kvenmenn.

Morgun- og hádegiskaffi kostar 40 aura í hvort sinn.

Kostnaður við þrenns konar morgunverð er reiknaður:

  1. mjólkurblandsvellingur og slátur (1,42 kr.),
  2. skyrhræringur og mjólk (1,56 kr.) eða
  3. flóuð mjólk og slátur (1,49 kr.). Mjólkurblandsvellingur er gerður úr vatnsblandaðri undanrennu og rís eða grjónaméli.

Í hádegisverð er eðlilegt að bjóða upp á:

  1. matfisk, brauð og viðbit (1,84 kr),
  2. kjötsúpu (2,00 kr.) eða
  3. baunagraut (1,90 kr.).

Til kvöldverðar er reiknað með:

  1. vatnsgraut, skyr og samblandsmjólk (1,14 kr.),
  2. nýmjólk (0,98 kr.) eða
  3. rúgbrauð, kæfa, smér og tevatn (0,70 kr.).

Ódýrasti matseðill er sá síðasti síðasti, 4,89 kr á dag. Þó er rétt er að hafa í huga að verð á hráefnum gætu hafa breyst eilítið síðan greinin var skrifuð.

Verð á einum kaffibolla er reiknað út frá að kaffi sé veitt 40 manns í einu. Til þess þarf 1 pund kaffi (90 aurar), 80 kvint kandís (40 aurar) og 3 rjómapela (30 aurar). Alls 160 aurar og það gerir 4 aurar bollinn.

Heimildir

Guðmundur Einarsson. Búreikningar 1845-1882. Héraðsskjalasafn Dalasýslu IS-HD-2011-6-1-1.

 

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén