Drangey sett í svalan mar
sífellt mettar snauða.
Svona hefst vísa eftir Gísla Ólafsson frá Eiríksstöðum um Drangey í Skagafirði. Eyjan hefur verið nefnd „mjólkurkýr“, „vorbæra“ og „matarkista“ Skagfirðinga sem er tilvísun í hversu mikilvægu hlutverki hún hafði að gegna við mataröflun í gegnum tíðina. Til Drangeyjar héldu Skagfirðingar til fuglaveiða og eggjatöku.
Miðað við frásögn Alberts Sölvasonar sem stundaði eggjatöku og veiði í Drangey á þriðja áratug 20. aldar var veiðivertíðin frá byrjun maí og fram í byrjun júlí. Um 60 manns tóku þátt í veiðinni og um 20 bátar. Á góðu aflaári gat veiðin verið um 70-80.000 fuglar. Eggjataka hófst í maí, fyrra sigið var venjulega um miðjan maí og seinna siginu varð að vera lokið fyrir Jónsmessu. Mikil búbót var af þessum nytjum í Drangey en ekki án fórna því nokkrar frásagnir eru til af mönnum er fórust í og við Drangey.

Í Drangeyjarfjöru í kringum 1950. Á myndinni sjást vel flekarnir sem notaðir voru til að veita fuglana. Úr ljósmyndasafni Sigurfinns Jónssonar.
Á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga er varðveitt töluvert af gögnum sem tengjast eyjunni, t.d. formannavísur, örnefnalýsingar, söguágrip, og ljósmyndir.