Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Norðfirðingar koma sér upp niðurlagningarverksmiðju

Þegar norsk-íslenska síldin hvarf af miðunum út af Austfjörðum höfðu Norðfirðingar verulegar áhyggjur af atvinnuástandi og umræður hófust um til hvaða ráða ætti að grípa til að skapa störf í stað þeirra sem töpuðust.

Stjórn Síldarvinnslunnar h.f. (hér eftir kallað S.V.N.) ræddi þessi mál seint á árinu 1969 og var ákveðið að kanna möguleikann á því að fyrirtækið kæmi upp niðurlagningarverksmiðju en með tilkomu slíkrar verksmiðju myndu skapast allmörg störf, ekki síst fyrir konur.

Niðurstaðan var sú að ákvörðun var tekin um að fyrirtækið skyldi koma niðurlagningarverksmiðju á fót og hófst undirbúningur af fullum krafti árið 1970. Ákveðið var að byggja hæð ofan á austasta hluta fiskvinnslustöðvarinnar og skyldi verksmiðjunni komið þar fyrir á 280 fermetrum. Framkvæmdir við bygginguna hófust í maímánuði 1970 og samtímis var unnið að kaupum á tækjabúnaði í verksmiðjuna.

Þann 14. desember þetta sama ár komu síðar vélar í verksmiðjuna, en þær voru fluttar til landsins með skuttogaranum Barða NK-120 sem þá kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Barði var fyrsti sérútbúni skuttogari Íslendinga.

Litið var á byggingu niðurlagningarverksmiðjunnar sem afar mikilvægt mál en gert var ráð fyrir að 40 – 50 manns myndu starfa í henni. Einungis var gert ráð fyrir að starfrækja verksmiðjuna yfir vetrarmánuðina þegar atvinnuástandið var hvað lakast. Ráðgert var að í verksmiðjunni yrði lagður niður sjólax, gaffalbitar og reykt síldarflök en með litlum breytingum átti að vera unnt að framleiða kavíar í henni og sjóða niður hrogn og lifur.

Dós með niðurlögðum sjólaxi frá Síldarvinnslunni.

Dós með niðurlögðum sjólaxi frá Síldarvinnslunni. Ljósm: Guðmundur Sveinsson.

Framleiðsla hófst í niðurlagningarverksmiðjunni hinn 1. febrúar árið 1971. Byrjað var á að leggja niður sjólax sem fluttur var út til Sovétríkjana en síðar á árinu hófst framleiðsla á gaffalbitum sem seldir voru til Svíþjóðar.

Ekki gerðu forráðamenn S.V.N. sér vonir um að niðurlagningaverksmiðjan yrði fyrirtækinu gróðalind. Í viðtali við blaðið Austurland í maí 1970 sagði Ólafur Gunnarsson m.a. þetta um fjármálahlið rekstursins:

Stjórn Síldarvinnslunnar gerir sér það ljóst, að ekki er að vænta fjárhagslegs hagnaðar af rekstri verksmiðjunnar, en vonast er til, að ekki verði um taprekstur að ræða.

Fljótlega komu í ljós ýmis vandamál við rekstur niðurlagningarverksmiðjunnar. Ekki reyndist unnt að starfrækja hana á sama tíma og unnið var við hraðfrystingu vegna fólksfæðar og markaðir fyrir afurðirnar voru ótryggir. Þegar í upphafi var tap á starfseminni og erfitt virtist að reka verksmiðjuna á sléttu.

Unnið við niðurlagningu í niðurlagningaverksmiðjunni í febrúar 1971

Unnið við niðurlagningu í niðurlagningaverksmiðjunni í febrúar 1971. Ljósm: Guðmundur Sveinsson.

Þegar bolfiskafli jókst með aukinni útgerð skuttogara frá Norðfirði var ekki þörf á rekstri niðurlagningarverksmiðjunnar til bjargar atvinnuástandi því atvinna var þá yfirleitt næg. Ekki þótti þó nógu gott að láta niðurlagningarverksmiðjuna standa ónotaða og vildu menn reyna til þrautar hvort ekki væri unnt að starfrækja hana án þess að um taprekstur væri að ræða.

Og verksmiðjan átti svo sannalega eftir að koma að góðum notum. Þann 20. desember 1974 féllu snjóflóð og ullu þau eyðileggingu og skemmdum á helstu framleiðslufyrirtækjum bæjarbúa. Síldarverksmiðja S.V.N. gereyðilagðist og fiskvinnslustöðin varð fyrir verulegum skemmdum. Mikið endurreisnarstarf þurfti að inna af hendi og var nóg að gera fyrir karlmenn, en fyrir konur blasti við atvinnuleysi. Þann 26. desember fjallaði stjórn S.V.N. um með hvaða hætti fyrirtækið gæti stuðlað að því að atvinnuleysi yrði ekki í kaupstaðnum. Var þá ákveðið að hefja starfrækslu niðurlagningarverksmiðjunnar hið fyrsta og hrósuðu menn þá happi yfir því að hún skyldi vera til staðar.

Þegar var hafist handa við að gera niðurlagningaverksmiðjuna starfhæfa og um miðjan janúar 1975 hófst þar framleiðsla á sjólaxi og niðursoðinni lifur. Í lok apríl höfðu verið lagðar niður 110 þúsund dósir af sjólaxi og soðnar niður 5 þúsund dósir af lifur.

Haldið var áfram að starfrækja verksmiðjuna fram á sumar og eins var hún starfrækt fyrstu mánuði ársins 1976,  en þá var starfseminni endanlega hætt.

Ástæðurnar fyrir því að þessari starfsemi lauk voru fyrst og fremst tvær: Í fyrsta lagi var verksmiðjan rekin með tapi og markaðir fyrir afurðir ótryggir og í öðru lagi hafði aukin áhersla á skuttogaraútgerð þau áhrif að mikill bolfisksafli barst að landi og næg verkefni voru til staðar við úrvinnslu aflans þannig að ekki var þörf fyrir verksmiðjuna til að bægja frá atvinnuleysi.

Heimildir

Smári Geirsson. Síldarvinnslan h.f. Svipmyndir úr hálfrar aldar sögu 1957-2007.

Smári Geirsson, Norðfjörður. Saga útgerðar og fiskvinnslu.

Ýmis gögn sem varðveitt eru hjá Skjala- og myndasafni Norðfjarðar – Héraðsskjalasafninu í Neskaupstað.

 

Next Post

Previous Post

© 2024 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén