Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Tilraun til kynbótar á íslenska kúastofninum

Árið 1933 voru flutt til landsins fimm nautgripir af fjórum mismunandi holdakynjum, Aberdeen Angus tarfur, Highland tarfur, Shorthorn tarfur, Galloway tarfur og Galloway kú sem reyndist kelfd. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933. Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans, Guðmundur Andrésson, ekki dýralæknislærður, fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út. Var þeim komið fyrir í Þerney í sóttkví.

Einungis viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar fóru að koma hrúðaðir hárlausir blettir á eitt nautið og fylgdi því mikill kláði. Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Var sjúkdómurinn talinn vera Hringormur (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum og var það gert 9. janúar 1934.

Leyfi atvinnu- og samgönguráðuneytisins til Magnúsa á Blikastöðum um að selja Galloway-kálfinn til Búnaðarsambands Suðurlands.

Leyfi atvinnu- og samgönguráðuneytisins til Magnúsa á Blikastöðum um að selja Galloway-kálfinn til Búnaðarsambands Suðurlands.

Galloway kálfurinn slapp þó við veikindi og var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Magnús Þorláksson bóndi á Blikastöðum keypti gripinn og hafði hann í einangrun í kjallara íbúðarhússins á Blikastöðum til 27. apríl 1934. Hinn 18. júlí sótti Magnús um leyfi til að selja kálfinn Búnaðarsambandi Suðurlands og fylgdi með heilbrigðisvottorð prófessors Níelsar Dungals, dagsett 16. júlí 1934.

Búnaðarsambandið keypti svo Galloway-kálfinn haustið 1934 og fór hann að Gunnarsholti. Þar var nautið og afkvæmi þess til 1936, er Búnaðarsamband Suðurlands hætti að reka búið. Þá var nautið og 4 kálfar undan því fluttir að Sámsstöðum í Fljótshlíð. Haustið 1939 voru gripirnir sem til voru, flestir fluttir að Hvanneyri en þar dó kynið út að mestu, þótt það væri lífgað við þar síðar. Frá Hvanneyri höfðu þá verið seldir nautkálfar að Geldingalæk á Rangárvöllum og þaðan mun kynið hafa borist að Gunnarsholti á ný. Þá var um tveggja ára skeið var Galloway-stofn á Bessastöðum.

 

Next Post

Previous Post

© 2023 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén