Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Vertshús-Mína

Vilhelmína Lever (1802-1879) á sérstakan sess í sögu þjóðarinnar og Akureyringa, hún var jú fyrst kvenna á Íslandi til þess að kjósa þegar hún kaus við bæjarstjórnarkosningar á Akureyri í mars 1863. Hitt vita líklega færri að hún stundaði veitingarekstur og gekk undir nafninu Vertshús-Mína í daglegu tali Akureyringa.

Snemma árs 1852 sendi Vilhelmína amtmanni beiðni um ,,að meiga setjast að á Akureyri til að baka brauð og kökur til útsölu, og til þess að meiga veita géstum kaffe, smurt brauð og lítilsháttar af öðrum drykkjarvörum fyrir borgun.“  Leyfið var veitt og Vilhemína hóf veitingarekstur í Aðalstræti 52.  Jafnframt gerðist hún brautryðjandi í tómstundamálum á Akureyri þegar hún setti upp ,,strýtuflöt“ við veitingahúsið. Líklega var strýtuleikurinn það sem í dag kallast keila.

Aðalstræti 52. Enginn veit hver byggði húsið en leiða má að því líkum að Vilhelmína Lever hafi staðið fyrir framkvæmdinni upp úr 1850. Þarna var hún með veitingarekstur en seldi húsið árið 1859.

Aðalstræti 52. Enginn veit hver byggði húsið en leiða má að því líkum að Vilhelmína Lever hafi staðið fyrir framkvæmdinni upp úr 1850. Þarna var hún með veitingarekstur en seldi húsið árið 1859.

Vilhelmína seldi síðar húsið og flutti úr bænum en um haustið 1861 kom hún aftur og fékk leyfi amtmanns til að gerast gestgjafi á Oddeyri og selja fyrir borgun ,,ferðafólki og sjómönnum gistingu, allskonar mat, kaffe, te, sjókólade, vín, púns og aðra áfenga drykki, samt hús og hey handa hestum.“  Henni var jafnframt gert skylt að koma í veg fyrir alla ofdrykkju og óreglu í veitingahúsi sínu og amtmaðurinn tók sérstaklega fram að ólögmæta spilamennsku og næturslark mætti hún alls ekki líða.

Vilhelmína flutti árið eftir í Innbæinn og var með veitingarekstur áfram. Eftir þetta var hún jafnan titluð veitingakona í húsvitjunarbók, svo lengi sem hún lifði, en þó má efast um að það sé rétt því í eftirmælum um hana segir að hún hafi verið blind síðustu árin.

Rithönd Vilhelmínu Lever veitingakonu.

Rithönd Vilhelmínu Lever veitingakonu.

 

Next Post

Previous Post

© 2023 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén