Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Mjólkurframleiðsla í Vestmannaeyjum

Frá því að byggð hófst í Vestmannaeyjum  hefur verið erfitt að halda  þar mikinn fjölda  búfjár, einkum mjólkandi kýr. Þær varð að hafa á Heimaey og ekki hægt að flytja í úteyjar til hagagöngu eins og sauðfé. Ræktað land var takmarkað og varð jafnvel að fá hey flutt út í Eyjar ofan af fastalandinu.

Skrá um vátryggða nautgripi 1915-1916.

Skrá um vátryggða nautgripi 1915-1916.

Árið 1880 var tilfinnanlegur mjólkurskortur farinn að gera vart við sig í Vestmannaeyjum. Mjólkandi kýr í Eyjum voru þá aðeins 45 talsins, eða u.þ.b. ein mjólkandi kú á hverja bændafjölskyldu.  Íbúar voru þá 557 talsins. Rúmum áratug síðar, árið 1892 voru kýrnar í Eyjum alls 35 talsins. Mjólkurskorturinn hafði þá verið ríkjandi um árabil og hjá fjölskyldum sem að töldust til þurrabúðarmanna eða tómthúsmanna, var hann algjör.

Vegna viðvarandi mjólkurskorts í Vestmannaeyjum voru á tímabili gefnir út skömmtunarseðlar fyrir mjólk frá Dalabúinu (1946-1962). Hérna sést sýnishorn.

Vegna viðvarandi mjólkurskorts í Vestmannaeyjum voru á tímabili gefnir út skömmtunarseðlar fyrir mjólk frá Dalabúinu (1946-1962). Hérna sést sýnishorn.

Þessi mikli viðvarandi mjólkurskortur leiddi til þess að framfarasinnaðir framámenn í sveitarfélaginu höfðu með sér samráð um stofnun búnaðarfélags í Vestmannaeyjum, Framfarafélags Vestmannaeyja, árið 1893. Á fundi í Framfarafélaginu í lok stofnársins lagði formaður Framfarafélagsins fram þá tillögu að stofnað yrði Nautgripaábyrgðarfélag Vestmannaeyja og var það samþykkt af öllum félagsmönnum Framfarafélagsins. Skaðabætur fyrir mjólkurkú skyldu nema allt að 1/3 af virðingarverði gripsins, ef að þyrfi að lóga honum vegna veikinda eða slysa, og áttu allar kýr félagsmanna að vera tryggðar hjá félaginu frá 1. Janúar 1894. Nautgripaábyrgðarfélagið var starfrækt í Eyjum fram yfir miðja tuttugustu öldina við góðan orðstír.

Bréf kúaeigenda til bæjarstjórnar Vestmannaeyja um sumarhaga fyrir kýr.

Bréf kúaeigenda til bæjarstjórnar Vestmannaeyja um sumarhaga fyrir kýr.

En áfram hélt þróunin til verri vegar. Í blaði Gísla J. Johnsen (1881-1965), vikublaðinu Skeggja, birtist í nóvember 1917 grein eftir Sigurð Sigurðsson (1879-1939), apótekara og skáld frá Arnarholti. Þar segist greinarhöfundur hafa sent fyrirspurn til Guðmundar Björnssonar (1864-1937), landlæknis, um hversu margar mjólkandi kýr Vestmannaeyingar þyrftu að hafa til þess að fullnægja mjólkurþörf  íbúanna . Í svari landlæknis kemur fram að þær ættu helst að vera a.m.k. 360 ef að vel ætti að vera, vegna þess að í þorpinu væru yfir 600 börn og fjöldi aðkomumanna á vertíðum. Á þessum tíma voru 110 mjólkandi kýr í Eyjum, sem að sýnir svo að ekki verður um villst að það var langt í frá að hægt væri að fullnægja mjólkurþörfum íbúanna. Einng benti Sigurður á að mjólkurverðið væri svo hátt að efnaminna fólk sem oftast átti mörg börn keypti litla eða enga mjólk. Ástandið var því ansi slæmt á þessum tíma og margir algerlega án nokkurrar mjólkur.

Lög Félags mjólkurframleiðenda í Vestmannaeyjum. Líklega samþykkt um 1950 (F-30/1).

Lög Félags mjólkurframleiðenda í Vestmannaeyjum. Líklega samþykkt um 1950 (F-30/1).

Upp úr aldamótunum 1900, þegar vélbátaútgerðin hófst varð fólksfjölgun í Eyjum svo ör að um 1930 bjuggu þar um 3000 manneskjur. Jarðirnar sem að ábúð var þá á í Eyjum gáfu ekki möguleika til meiri heyöflunar en sem að nam fóðri fyrir 150 – 170 kýr. Ástandið var þannig að til vandræða horfði frá heilbrigissjónarmiði séð, sérstaklega fyrir barnafjölskyldur sem að voru þá margar mjög stórar. Eitthvað varð að taka til bragðs. Búnaðarfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1924. Bæjarstjórnin og félagið sendu þá ríkisstjórninni erindi þar sem að fram á það var farið að landi í Vestmannaeyjum yrði skipt þannig að þeir sem að vilja fást við ræktun lands með það sjónarmið fyrir augum að búa með mjólkurkýr, eigi kost á ákveðnu útmældu landi og að þeir fái það til erfðafestu. Landinu var því skipt niður í smájarðir og þær svo byggðar 44-45 bændum. Hver einstaklingur hafði umráð yfir sínu túni, en allir höfðu sameiginleg afnot af beitarlandi sem að var ekki skipt.

Mjólkurskýrsla frá Dalabúinu í Vestmannaeyjum.

Mjólkurskýrsla frá Dalabúinu í Vestmannaeyjum.

Helgi Benónýsson ((1900-1985), búfræðingur var sendur til Eyja á þriðja áratugnum til þess að hafa umsjón með jarðræktarstarfinu sem að þá fór í hönd. Honum varð svo vel ágengt í starfi sínu að í heimsstyrjöldinni síðari hafði hann ræktað um 800 dagsláttur að meira eða minna leiti. Helgi settist að í Eyjum, kom sér upp stóru kúabúi á Vestri-Vesturhúsum, fékk sér fyrstu mjaltavélina sem að kom til Eyja og hann var maðurinn á bak við nýja aðferð á dreifingu mjólkur, með því að innleiða notkun á glerflöskum til dreifingarinnar, en áður voru notaðir brúsar.

Kýrnar í Dölum á beit við fjósið, hlöðuna og tækjahúsið í Dölum. Ljósmynd Jóhann Stígur Þorsteinsson.

Kýrnar í Dölum á beit við fjósið, hlöðuna og tækjahúsið í Dölum. Ljósmynd Jóhann Stígur Þorsteinsson.

Í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1942 var hafist handa við að reisa kúabú til mjólkurframleiðslu, í Dölum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja stofnaði þá Dalabúið á báðum jörðunum, en byggingu þess lauk ekki fyrr en 1946. Byggt var 60 bása fjós og stórar þurrheyshlöður. Hlöðurnar voru alls 638 rúmmetrar, safnþrær um 300 rúmmetrar og svo var byggt áburðar- og vélahús, auk votheyshlöðu, alls 113 rúmmetrar. Jafnframt var farið í stórfellda ræktun á túnum. Á búinu voru að jafnaði 50 mjólkandi kýr og um 10-12 geldneyti og var mjólk flutt daglega á sjúkrahúsið, elliheimilið og barnaheimilið. Afgangurinn var seldur í verslun í bænum. Árið 1944 varð Ársæll Grímsson (1901-1998) , bústjóri á Dalabúinu, en tveimur árum seinna tók Guðjón Jónsson (1913-2001) við og var hann við stjórnvölinn þar til að jörðin var seld.  Þegar Mjólkursamsalan hóf að selja mjólkurvörur í bænum árið 1954 fékk bærinn svo að selja sína mjólk í verslun hennar. Jörðin var svo seld árið 1962 til einstaklinga í bænum og lauk þar með mjólkurframleiðslusögu kaupstaðarins.

Myndarlegur gripur frá Dalabúinu lætur fara vel um sig í túninu við Dali. Flugvöllurinn (norður-suðurbrautin, Fiskhellanef, Dalfjall og Blátindur í baksýn. Ljósmyndari Gísli Friðrik Johnsen.

Myndarlegur gripur frá Dalabúinu lætur fara vel um sig í túninu við Dali. Flugvöllurinn (norður-suðurbrautin, Fiskhellanef, Dalfjall og Blátindur í baksýn. Ljósmyndari Gísli Friðrik Johnsen.

Eftir að sala og dreifing á mjólkurvörum hófst fyrir alvöru í Vestmannaeyjum  og framleiðendum fjölgaði var hún ávallt með þeim hætti að framleiðendur seldu vöru sína milliliðalaust til neytenda. Þessi skipan hélst óbreytt þar til mjólkurframleiðsla lagðist af í kjölfar eldgossins á Heimaey árið 1973. Neytendur sóttu mjólkina ýmist sjálfir eða fengu hana senda heim.

Reikningur fyrir mjólkurkaup frá Þorbirni Guðjónssyni, bónda, (1891-1974) á Kirkjubæ. Dagsett skömmu fyrir gos, í október 1972. Kaupandi var Sigurjón Auðunsson, verkstjóri (1917-2004).

Reikningur fyrir mjólkurkaup frá Þorbirni Guðjónssyni, bónda, (1891-1974) á Kirkjubæ. Dagsett skömmu fyrir gos, í október 1972. Kaupandi var Sigurjón Auðunsson, verkstjóri (1917-2004).

Líkt og Helgi á Vesturhúsum, þá byrjaði  Þorbjörn Guðjónsson (1891-1974) á Kirkjubæ skömmu eftir hann hóf búskap á þriðja áratug tuttugustu aldarinnar að flytja mjólkina á flöskum heim til neytenda og hélt því áfram fram að gosi. Þannig taldi hann best að tryggja neytendum óskemmda vöru. Fyrst var mjólkin flutt með hestvagni, en svo tók Landroverjeppinn við. Smásaman varð bóndinn við mjólkurflutningana hluti af bæjarmyndinni og börnin í austurbænum voru hans helstu hjálparhellur við dreifinguna. Tobbamjólk var daglega drukkin og flöskurnar mjög víða að finna  fram að gosi. Í dag eru flöskurnar hans Tobba minjagripir á mörgum heimilum í Vestmannaeyjum. Búið á Kirkjubæ var eftir 1955 á milli 25 og 30 mjólkandi kýr og nautgripir alls um 40 talsins. Þannig var blómaskeið stærsta kúabúsins í Eyjum í einkaeign, fram að gosi. En mjólkurframleiðslu í Vestmannaeyjum var sjálfhætt við upphaf gossins á Heimaey árið 1973, þegar allir nautgripir í Eyjum voru reknir til slátrunar niður í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja um miðja nótt.

Heimildir

í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja sem tengjast mjólkurframleiðslu er að finna í eftirfarandi söfnum:

B-1             Dalabúið (1944-1965).

F-2             Nautgripaábyrgðarfélag Vestmannaeyja (1893-1953).

F-25           Framfarafélag Vestmannaeyja ((1893-1911).

F-42           Búnaðarfélag Vestmannaeyja (1924-1970).

M-188        Helgi Benónýsson, búfræðingur (1900-1985).

 

Next Post

Previous Post

© 2023 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén