Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Mjólkurflutningar í Svarfaðardal

Árið 1934 var í fyrsta sinn gerð tilraun til að flytja mjólk frá Svarfaðardal til Akureyrar. Þetta var fyrri hluta sumars og vegurinn til Akureyrar var ekki fullgerður. Tilraunin tókst það vel og varð slík búbót fyrir bændur að í kjölfarið eða 1935 var ákveðið að stofna sérstaka mjólkurdeild innan Svarfdæladeildar KEA. Það voru 18 bændur sem gerðust stofnfélagar.

Verið að afferma mjólkurbílinn Reó Studebaker í flóabátinn Drang í Dalvíkurhöfn. Til vinstri sér í sleða með mjólkurbrúsum. Myndin er frá 1960 – 1970. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar)

Verið að afferma mjólkurbílinn Reó Studebaker í flóabátinn Drang í Dalvíkurhöfn. Til vinstri sér í sleða með mjólkurbrúsum. Myndin er frá 1960 – 1970. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar).

Í fyrstu var það útibú KEA á Dalvík sem sá um rekstur mjólkurbílanna en árið 1950 var Mjólkurflutningafélag Svarfdæla stofnað. Það starfaði sjálfstætt en kaupfélagsstjórinn sá þó um daglega framkvæmd. Mjólkurflutningafélagið sá um alla flutninga eftir það og bæði keypti og rak mjólkurbílanna til 1976 að mjólkursamlag KEA tók yfir reksturinn.

Bóndinn og mjólkurbílstjórinn. Alexander Jóhannsson bóndi í Hlíð í Skíðadal flytur mjólkina á mjólkurbílinn. Bílstjórinn Jón A. Jónsson tekur á móti. Myndin er tekin 1960 – 1970. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar)

Bóndinn og mjólkurbílstjórinn. Alexander Jóhannsson bóndi í Hlíð í Skíðadal flytur mjólkina á mjólkurbílinn. Bílstjórinn Jón A. Jónsson tekur á móti. Myndin er tekin 1960 – 1970. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar).

Við komu mjólkurbílanna og þar með bílstjóranna gjörbreyttist líf fólksins í dalnum. Frá upphafi var gert ráð fyrir farþegum í bílnum og fljótlega fluttu bílstjórarnir bæði póst og daglegar vörur til fólks jafnframt sem þeir komu verðmætri mjólkinni frá búunum.

Mjólkurbíll á ferðinni við bæinn Ytra-Holt í Svarfaðardal að vori til þegar frost er að fara úr jörðu. Bílstjórinn er Sveinn Jónsson (1922) á Volvo A-1418. Farþeginn er óþekkt stúlka. Myndin er tekin 1960-1970. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar)

Mjólkurbíll á ferðinni við bæinn Ytra-Holt í Svarfaðardal að vori til þegar frost er að fara úr jörðu. Bílstjórinn er Sveinn Jónsson (1922) á Volvo A-1418. Farþeginn er óþekkt stúlka. Myndin er tekin 1960-1970. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar).

Vegirnir voru oft illfærir ekki aðeins vegna snjóþyngsla heldur ekki síður aurbleytu sérstaklega á vorin. Til þess að geta komið mjólkinni í samlagið allt árið var það ráð tekið að flytja mjólkina sjóleiðis frá Dalvík til Akureyrar þegar mesta ófærðin var. Þá þurftu bændur oft sjálfir að koma mjólkinni til Dalvíkur. Í fyrstu var það með hestum og sleðum en síðar dráttarvélum og jarðýtu sem drógu sleðalestir á eftir sér. Öllu þessu fylgdi mikið erfiði og bæði bílstjórar og bændur lögðu á sig ómælt erfiði við að koma mjólkinni á markað. Sögur af ótrúlegum ferðalögum og harðfylgi bílstjóra eru enn lifandi meðal fólks í Dalvíkurbyggð og eru gjarnan rifjaðar upp þegar tækifæri gefast.

Fannbarinn mjólkurbíll á Dalvík 1967 eða 1968. Bílstjórinn Jón A. Jónsson (1936) og það er sonur hans Jón Smári Jónsson(1958) sem stendur hjá og fylgist með. Húsið í baksýn er Ungó. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar)

Fannbarinn mjólkurbíll á Dalvík 1967 eða 1968. Bílstjórinn Jón A. Jónsson (1936) og það er sonur hans Jón Smári Jónsson(1958) sem stendur hjá og fylgist með. Húsið í baksýn er Ungó. (Úr safni Jónasar Hallgrímssonar).

Heimildir

Fundagerðarbækur Mjólkurflutningafélag Svarfdæla 1935 – 1978. Héraðsskjalasafn Svarfdæla.

Solveig Brynja Grétarsdóttir (1983,  „Mjólkurflutningar í Svarfaðardal“. Súlur: norðlenskt tímarit. 1983 (1-2) s. 56-80.

 

Next Post

Previous Post

© 2021 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén