Til hnífs og skeiðar

Matvæli - fæðuöflun – úrvinnsla – neysla

Húsmæðranámskeið í Borgarnesi haldið árið 1915

Vinsældir þess að fara á námskeið og læra um nýjungar í matargerð og öðru því sem snýr að heimilisstörfum eru ekki alveg nýjar af nálinni. Um það má lesa í  Morgunblaðinu þann 15. maí 1915 en þar segir frá húsmæðranámskeiði sem haldið var í Borgarnesi.

Borgarnes er snoturt uppvaxandi kauptún með 2-300 íbúum. Um páskana mátti sjá að eitthvað nýtt var á seyði. Uppi var fótur og fit og gesta von í hverju húsi. Búnaðarsambandið hafði boðað til húsmæðranámskeiðs er halda skyldi vikuna eftir páska. Aðalumsjónarmaður námskeiðsins var Hjörtur Snorrason alþingismaður.

Á annað hundrað konur úr Borgarfirði og af Mýrunum sóttu námskeiðið og var talið að um 40 af þeim væru ógiftar en hitt húsmæður. Voru margir fyrirlesarar, bæði karlar og konur,  sem fjölluðu m.a.  um garðyrkju, alþýðufræðslu, matartilbúning og um réttindi kvenna.  Haldnir voru skemmtifundir á kvöldin og síðasta kvöld námskeiðsins var haldinn dansleikur.

Í Morgunblaðinu  segir ennfremur að frúrnar Rebekka Kristensen og Ragnhildur Pétursdóttir hafi verið með óslitna kennslu í matartilbúningi með sýningu og fyrirlestrum. Hafði hún farið fram í sölum barnaskólans og var höfð olíueldavél á palli á öðrum enda salarins, svo að allir gætu setið í sætum sínum og séð þó og heyrt allt er fram færi.

Kennslukonur á matreiðslunámskeiðinu voru Ragnhildur Pétursdóttir úr Engey til vinstri og Rebekka Kristensen Einarsnesi.

Kennslukonur á matreiðslunámskeiðinu voru Ragnhildur Pétursdóttir úr Engey til vinstri og Rebekka Kristensen Einarsnesi.

Á töflunum á myndinni má sjá að á matseðlinum var áfasúpa og fyllt hjörtu og ef ykkur langar að elda áfasúpu er hægt að fara inn á vef Hins blómlega bús og fræðast um hvernig á að bera sig til við það.

Heimildir

Morgunblaðið 15. maí 1915. „Námskeiðið í Borgarnesi“.

 

Next Post

Previous Post

Leave a Reply

© 2023 Til hnífs og skeiðar

Theme by Anders Norén